Hefurðu einhvern tímann komið úrvinda úr verslunarleiðangri eða fundist orkan þín á þrotum eftir langan vinnudag? Hefur þér fundist erfitt að vera innan um fólk þar sem neikvæðni er allsráðandi eða á stað þar sem umhverfisáreitið er mikið?
Það er á svona stundum sem dýrmætt er að muna eftir styrknum til að fara inn á við. Líkt og skjaldbakan sem dregur sig inn í skelina, finnur öryggi og hvílist frá öllu ytra áreiti, get ég dregið athyglina inn á við og átt friðsæla og endurnærandi stund. Þetta get ég gert hvar og hvenær sem er, jafnvel í biðröðinni í búðinni, í bílnum á rauðu ljósi eða í kaffistofunnni á vinnustaðnum. Nokkur slík augnablik yfir daginn geta skipt sköpum og stuðlað að því að í lok dagsins sé hugurinn enn ferskur og jákvæður.
En hvað er það sem ég geri nákvæmlega þegar ég gef mér stund til að fara inn á við og endurhlaða sálarbatteríið?
Hér er lítil æfing:
Líkt og leikarinn vel ég að stíga út úr hlutverkinu mínu stutta stund til að tengja við minn innsta kjarna. Ég skynja umhverfið nú líkt og hlutlaus áhorfandi með vissri fjarlægð sem veitir mér frelsi. Ég færi síðan athyglina frá umhverfinu að mínum innri veruleika. Ég tengi við þann friðsæla kjarna sem ég er. Ég finn fyrir innra jafnvægi, stöðugleika og friðsælum styrk innra með mér, sálinni. Þegar ég fer inn á við þá tengist ég sannleikanum og raunveruleikanum um mig. Ég skil hver ég er og hvað ég þarf að gera. Með endurnýjun á sannri og raunverulegri vitund minni, sný ég aftur út í heim athafna.
Lítil hugaræfing sem þessi tekur aðeins örstutta stund og jafnvel þó við gefum okkur aðeins nokkrar sekúndur af og til yfir daginn veitir það okkur innri frið, aukna orku og vellíðan. Í góðum tengslum við okkur sjálf er mun líklegra að við bregðumst við þeim daglegu uppákomum sem lífið færir okkur með friðsæld og innri styrk.