Námskeið/skráning
Við leggjum okkur fram við að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá og auk Raja Yoga hugleiðslunámskeiðisins eru í boði ýmis námskeið og fyrirlestrar sem fjalla um hugrækt og sjálfsstyrkingu. Ekkert gjald er tekið fyrir námskeiðin og er kostnaði mætt með frjálsum framlögum þátttakenda.
Zoom leiðbeiningar
Hér eru leiðbeiningar til að tengjast við beinar útsendingar frá Lótushúsi: http://lotushus.is/zoom-leidbeiningar/
Frjáls framlög
Starfsemi Lótushúss er rekin fyrir frjáls framlög og geta þátttakendur stutt starfið með því að setja sitt framlag í box í forstofunni eða leggja inn á eftirfarandi bankareikning:
Brahma Kumaris andleg fræðslumiðstöð
Kt: 460804-2720
Rnr: 0130-26-8882
Reglubundnir opnir hugleiðslutímar
Mánudagar kl. 19:30-20:15
Fimmtudagar kl. 12:10-12:40
Staðsetning: Lótushús Garðatorgi, miðbæ Garðabæjar
Við bjóðum upp á opna tíma með leiddum Raja Yoga hugleiðslum tvisvar í viku og ekki þarf að skrá sig fyrirfram. Í tímunum gefst tækifæri til að hugleiða með öðrum í friðsælu og styðjandi andrúmslofti Lótushúss og eru öll hjartanlega velkomin, byrjendur jafnt sem lengra komnir.
Kyrrðarstundir í beinni útsendingu á Zoom
Laugardagar kl. 9:30-9:45
Leiðbeiningar til að tengjast hér: http://lotushus.is/zoom-leidbeiningar/
Lótushús og Spirit of Humanity Forum standa fyrir endurnærandi stundum í beinni útsendingu á laugardagsmorgnum kl. 9:30-9:45. Þar hugleiðum við saman, njótum gefandi samveru í kyrrð og fáum stundum góða gesti til að deila frá hjartanu. Kyrrðartundirnar geta veitt kærkomið tækifæri til að stíga eitt augnablik úr erli og hraða hversdagsins og gefa kyrrðinni aukið rými í hug og hjarta. Öll eru hjartanlega velkomin.
Frelsi frá álögum egósins
Leiðbeinendur: Stefanía Ólafsdóttir og Steinunn Magnúsdóttir
Staðsetning: Lótushús Garðatorgi, miðbæ Garðabæjar
Flestum reynist mun auðveldara að koma auga á egó og tilfinningalegar bindingar í fari annarra en sjálfs sín, enda eru þessir lestir lúmskir og hafa fjölmargar birtingarmyndir. Mörg erum við afar flink í að blekkja okkur sjálf, yfirleitt alveg ómeðvitað, en það getur valdið innri ringulreið og sársauka. Það er hins vegar í eðli mannssálarinnar að vera frjáls og sterk og hin andlega vegferð leiðir okkur aftur þangað.
Á þessu hálfsdagsnámskeiði verður lögð sérstök áhersla á að veita skilning á eðli egósins og tilfinningalegra bindinga. Skilningurinn hjálpar okkur að sjá okkur sjálf og hugsana- og hegðunarmynstur okkar í skýrara ljósi sem leiðir af sér aukinn innri styrk til að gera jákvæðar breytingar.
Við munum skoða þessi áhugaverðu viðfangsefni í gegnum fræðslu, leiddar hugleiðslur og ýmis konar æfingar.
Boðið verður upp á létta grænmetismáltið í hádeginu.
Námskeiðið er ókeypis og opið öllum þeim sem hafa komið á Raja Yoga hugleiðslunámskeiðið en skráning er nauðsynleg og fer fram hér:
Skráning
Raja Yoga-hugleiðsla Grunnnámskeið
Hugleiðsla hefur í gegnum aldirnar verið ein einfaldasta og áhrifaríkasta leiðin til að öðlast jákvæðara og kyrrara hugarástand. Raja Yoga hugleiðsla byggir á upplifun einstaklingsins á sínu innra sjálfi og hjálpar okkur m.a. að byggja upp sanna sjálfsvirðingu og virkja þá góðu eiginleika sem innra með okkur búa.
Námskeiðið er ætlað byrjendum jafnt sem lengra komnum og kenndar eru einfaldar hugleiðsluæfingar sem gagnast við að takast á við áskoranir daglegs lífs.
Námskeiðið er í fjögur skipti á mánudögum og fimmtudögum kl. 18:00-19:00; 18.8., 21.8., 25.8. og 28.8.
Staðsetning námskeiðs: Lótushús, Garðatorgi, miðbæ Garðabæjar.
Skráning
Fimm svið karmalögmálsins
Erindi: Steinunn Magnúsdóttir
Staðsetning: Lótushús Garðatorgi, miðbæ Garðabæjar
Margir óttast hið óþekkta og þar sem lífið virðist oft hlaðið óvæntum uppákomum, sem við eigum jafnvel erfitt með að skilja, getum við auðveldlega fyllst kvíða og óöryggi. Þegar skilningur okkar á leyndardómum lífsins vex, hverfur hins vegar dulúðin, við sjáum atburðarás lífsins í skýrara ljósi og eigum því auðveldara með að taka farsælar ákvarðanir.
En hvernig getum við séð leyndardóminn sem liggur að baki því sýnilega og augljósa og lært að skilja betur eitt stærsta lögmál heimsins?
Steinunn Magnúsdóttir er búsett í Bologna á Ítalíu og er ein af þeim sem heldur utan um starf Brahma Kumaris hugleiðslumiðstöðvanna þar í landi. Steinunn hefur iðkað og kennt Raja Yoga hugleiðslu í tæp 20 ár og er mörgum vinum Lótushúss að góðu kunn en hún hefur haldið fjölmörg áhugaverð og vinsæl námskeið á Íslandi.
Aðgangur ókeypis og allir velkomnir en skráning er nauðsynleg og fer fram hér: