Það hljómar undarlega að hægt sé að týna sjálfum sér en margir upplifa það samt að missa tengslin við eigið sjálf og reka stefnulaust áfram í lífinu, oft á skjön við eigin lífsgildi. Slíkt líf minnir meira á svefn en vöku því meðvitundin er aðeins til staðar að hluta til. Sem lítil börn erum við oft í mun betri tengslum við okkur sjálf en eftir því sem við eldumst er líkt og við gleymum okkur í hversdagslegri rútínu, lífið verður litlausara. Margir reyna að bæta sér það upp með ferðalögum, afþreyingu og skemmtunum í ýmsum myndum en tímabundin ánægjan sem af því hlýst er ekki það sem við raunverulega leitum að.

Sum augnablik í lífinu eru samt annars eðlis. Þá er líkt og við vöknum til sterkrar vitundar um eigið sjálf og upplifum lífið til fullnustu, oft aðeins í stutta stund, þar til doði rútínunnar tekur aftur yfir. Sumir upplifa slík augnablik þegar þeir eru einir með sjálfum sér í náttúrunni, aðrir þegar þeir standa með sjálfum sér og taka hugrekkisskref í lífinu. Enn aðrir þegar þeir upplifa dauðsfall einhvers náins ættingja eða vinar og gera sér á sama tíma betur grein fyrir því hversu dýrmætt lífið er. En hvað skyldi það vera sem við upplifum svona sterkt á þessum andartökum þegar við finnum fyrir dýpri meðvitund um okkur sjálf og lífið?

Sjálfsmynd flestra byggist á útliti, þjóðfélagsstöðu, kyni, aldri, hæfileikum o.s.frv. Á sterkustu augnablikunum í lífi okkar eru þessi atriði samt ekki í huga okkar heldur hrein upplifun af okkar innsta kjarna. Þá er eins og allir þessir ytri þættir í fari okkar hætti að skipta máli því þegar upp er staðið, þá er allt þetta forgengilegt og síbreytilegt og segir í raun lítið til um það hver við raunverulega erum.

Leitin að okkur sjálfum er í rauninni leit að þessari djúpu sannleiksvitund sem við höfum öll einhvern tímann upplifað á sterkum augnablikum í lífi okkar, meðvitað eða ómeðvitað. Í gegnum hugleiðslu getum við vakið þessa vitund upp af svefninum og leyft henni smám saman að verða ríkjandi í lífi okkar á kostnað rútínunnar.