Nútíma samfélag býður uppá sífellt meira utanaðkomandi áreiti. Mismunandi upplýsingar, kenningar og skoðanir úr öllum áttum geta gert okkur alveg ringluð og orðið til þess að við missum tengslin við okkur sjálf. Hvernig getum við vitað hvað er rétt og hverju er hægt að treysta? Það er ekki alltaf auðvelt að greina það og því meiri áhrif sem við tökum inn frá umhverfinu, því erfiðara verður að greina hvað er raunverulega sannleikur og hvar hef ég einfaldlega orðið fyrir áhrifum af sannfæringarkrafti annarrar manneskju.
Sá sem vill komast að eigin kjarna og finna sannleikann innra með sér, þarf að vera tilbúinn að einfalda líf sitt. Hljómur sannleikans er hvorki flókinn né dularfullur heldur kristalstær og einfaldur, svo einfaldur að flestir eiga erfitt með að greina hann. Í sögunni „Nýju fötin keisarans“ var það barnið sem sá í gegnum blekkingar fullorðna fólksins og opnaði augu þess. Slíkrar barnslegrar einlægni er þörf, viljum við komast aftur að kjarna málsins og rifja upp hvað felst í því að vera manneskja.
Sá sem velur að einfalda líf sitt byrjar að forgangsraða öðruvísi. Hann endurmetur hvað skiptir máli og hverju er betra að sleppa. Hann tekur meðvitaða ákvörðun um að taka minna inn af utanaðkomandi áhrifum og verja meiri tíma í að hlusta inn á við, á rödd eigin samvisku og innsæis. Í dag eru margir meðvitaðir um að borða hollan mat en oft nærum við hins vegar hugann og vitsmunina á ruslfæði. Hugsum okkur t.d. einstakling sem nærir líkamann á hollum morgunverði en hugurinn tekur á sama tíma inn neikvæðar fréttir eða slúður í gegnum augu og eyru. Slík byrjun á degi er ekki líkleg til að vera andlega uppbyggjandi. Sá sem hins vegar velur að verja stund með sjálfum sér í þögn og næði á hverjum morgni, styrkir tengslin við sjálfan sig og er því mun líklegri til að geta verið sannur og samkvæmur sjálfum sér yfir daginn.
Æfing
Æfðu þig í að hlusta eftir svörum innra með þér þegar þú tekur ákvarðanir. Ákvarðanirnar þurfa hvorki að vera stórar né merkilegar en þú skalt samt gefa þér tíma til að spyrja þig „hvað vil ég?“, „hvað væri best fyrir mig að gera í þessum aðstæðum?“ Leyfðu eigin samvisku og innsæi að birta þér svarið og fylgdu því eftir í verki.
Hugleiðsla
Gefðu þér stutta stund á hverjum degi til að sitja með sjálfum þér. Hugsaðu þér að þú lokir dyrum skynfæranna og hættir að taka inn áreiti gegnum augu og eyru. Dveldu innra með þér og upplifðu hvernig það er að vera þú. Hlustaðu eftir þögninni sem býr á milli hugsana þinna og leyfðu þeirri þögn að taka sífellt meira rými innra með þér. Haltu síðan aftur út í daginn en minntu þig af og til á þögnina hið innra.