Um Lótushús

Lótushús er hugleiðsluskóli sem starfræktur hefur verið frá árinu 2000, fyrst í Kópavogi en nú á Garðatorgi í miðbæ Garðabæjar. Einnig heldur skólinn reglulega námskeið á landsbyggðinni sé þess óskað. Í Lótushúsi eru haldin hugleiðslu- og sjálfsstyrkingarnámskeið með reglulegu millibili allan ársins hring og hafa þúsundir Íslendinga sótt námskeið og viðburði á vegum skólans.

Ekkert gjald er tekið fyrir námskeiðin og er kostnaði mætt með frjálsum framlögum þátttakenda.

Lótushús tilheyrir alþjóðlegu samtökunum Brahma Kumaris World Spiritual University.
Sjá nánar um alþjóðlegu starfsemina á brahmakumaris.org

Hverjum eru námskeiðin ætluð?

Námskeiðin eru ætluð öllum þeim sem vilja finna innri frið og styrk til að ná betri tökum á sjálfum sér og lífi sínu. Aðferðirnar eru einfaldar en áhrifaríkar og geta gagnast fólki á öllum aldri, byrjendum jafnt sem lengra komnum. Í heimi þar sem ytra áreiti eykst dag frá degi, er fátt mikilvægara en að gefa sér tíma til að staldra við og hlúa að eigin huga. Því má kannski segja að hugleiðsluiðkun sé ein sú dýrmætasta gjöf sem fólk getur gefið sjálfu sér í dag. Gengið er út frá að hugleiðsla eigi erindi við alla og lögð er áhersla á notagildi hugleiðslunnar í daglegu lífi.

Hvernig er starfsemin rekin?

Öll námskeið og viðburðir á vegum Lótushúss eru þátttakendum að kostnaðarlausu og er kostnaði mætt með frjálsum framlögum þeirra sem hafa notið góðs af starfsemi skólans. Við teljum það mikilvægt að allir geti átt þess kost að finna innra jafnvægi og styrk, óháð fjárhag, en erum jafnframt þakklát fyrir frjáls framlög því þau eru ómetanlegur stuðningur við starfið.

Námskeið fyrir vinnustaði og hópa

Auk almennra námskeiða býður Lótushús upp á fyrirlestra og námskeið fyrir vinnustaði og hópa og hefur slíkt gefið góða raun. Markmið námskeiðanna er að kenna einstaklingunum aðferðir til að tileinka sér jákvætt viðhorf, en það stuðlar óhjákvæmilega að jákvæðara andrúmslofti og einingu innan hópsins/vinnustaðarins. Þeir sem vilja kynna sér þennan möguleika betur geta sent fyrirspurn á netfangið lotushus@lotushus.is

Hvað táknar lótusblómið?

Lótusblómið táknar hreinleika hugar og hjarta. Lótusinn hefur ræturnar í moldinni en krónan flýtur ofan á vatninu, ómenguð af óhreinindum botnsins og snýr í átt til sólar. Á sama hátt getum við með hugleiðsluiðkun haldið huganum björtum og hreinum, handan neikvæðra áhrifa.