Umsagnir

Í ársbyrjun 2009 var ég þrotin að kröftum, bæði andlega og líkamlega. Þá bentu góðar konur mér á að tala við Sigrúnu Olsen í Lótushúsinu og það var upphafið að þeirri andlegu og líkamlegu heilsubót sem ég hef búið að síðan. Þar lærði ég að beita Raja Yoga hugleiðslu til að kyrra hugann, virkja jákvæða hugarorku mína og verjast neikvæðum straumum annarra. Öll sækjumst við eftir andlegu jafnvægi þar sem við erum í góðum tengslum við okkur sjálf og samferðafólk okkar. Raja Yoga hugleiðslan er mikilvægt tæki í þeirri leit.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrv. svæðisstjóri UN Women í Evrópu og Mið-Asíu,

Með hugleiðslu og lífsspeki hafa kennarar Lótushúss kennt mér að skoða hugsanir mínar og velja vandlega. Fyrir mér er hugleiðsla svolítið eins og að taka til í fataskáp. Henda flíkunum sem klæða mann illa og þvælast fyrir þeim sem maður þarf raunverulega á að halda. Fá betri yfirsýn yfir þessar vönduðu sem leynast á milli og draga fram fegurðina. Það er eins með hugann. Með hugleiðslu getum við valið þær hugsanir sem fara okkur best og við erum hreyknust af.

Lára G. Sigurðardóttir, læknir,

Þegar ég hef náð mínu besta fram á tónleikum hefur fókusinn ávallt verið á töfrum augnabliksins. Þó það hljómi kannski ólíklega er slíkt ástand allt annað en sjálfgefið og ég átta mig betur og betur á mætti þess að þjálfa hugann til að fækka óþarfa hugsunum. Stundum þarf ekki meira en eina mínútu af innri þögn til að gjörbreyta líðan og ástandi, hvort sem er undir pressu eða bara í róti hversdagsins. Mín reynsla af einfaldri en djúpri hugþjálfun og lífsspeki Brahma Kumaris er sú að ég trúi því hún eigi jafnt erindi við fólk af ólíkri dýnamík og uppruna.

Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikari,

Eftir að ég byrjaði að stunda Raja Yoga og hóf að tileinka mér hugmyndafræðina sem kennd er í Lótushúsi hafa lífsgæði mín aukist til muna og ég lifi hamingjusamara lífi. Ég á auðveldara með að takast á við innri og ytri óróa, er jákvæðari og umburðalyndari en áður og ber ábyrgð á minni eigin líðan. Ég mæli með Lótushúsi fyrir alla sem vilja styrkja sjálfan sig og læra að hugleiða á einfaldan og áhrifaríkan hátt.

Magnea Árnadóttir, bankastarfsmaður,

Sú þekking sem kennd er í Lótushúsi hefur hjálpað mér að halda jafnvægi og innri styrk á tímum þar sem utanaðkomandi aðstæður sveiflast og breytast. Ég er orðinn meðvitaðri um hver ég raunverulega er og hef meiri stjórn á því hvernig mér líður. Þetta hefur hjálpað mér mikið í mínu starfi sem og í mínu pesónulega lífi.

Brjánn Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sólsteinar/S. Helgason,

Frá því ég man eftir mér hef ég velt fyrir mér tilgangi lífsins og þeirri spurningu hver ég er. Því leitaði ég víða fanga að svörum, svo sem í gegnum ýmiss konar námskeið, sjálfshjálparbækur og fleira. Það var ekki fyrr en ég kom á hugleiðslunámskeið í Lótushúsi að ég fann það sem ég hafði leitað að. Það er óteljandi margt sem mér hefur orðið ljóst varðandi lífið og tilgang þess en lykilþátturinn í því er að þarna fékk ég fyrst að upplifa og reyna persónulega þá fræðslu sem veitt var, á mínum eigin forsendum, á mínum hraða og leyft að spyrja spurninga og efast án nokkurra fordóma.

Jóhanna Briem, MA í uppeldis- og menntunarfræðum,