Á einu augnabliki getur líf okkar og tilvera umbreyst við ýmiss konar áskoranir sem við upplifum sem alvarlegar og ógnandi. Greining alvarlegs sjúkdóms, fráfall ástvina, atvinnumissir, höfnun eða skilnaður, svo eitthvað sé nefnt. Tilfinningin getur verið svo lamandi að ekkert annað en óttablandnar hugsanir komast að í huganum, vanmáttur og vonleysi. Við slíkar aðstæður dugar oft ekki til að grípa til styrkjanna að umbera eða að aðlagast (styrkir mars og apríl hjá okkur).
Hvað er þá til ráða?
Dagleg hugleiðsluiðkun styrkir mig andlega til að takast á við áskoranir daglegs lífs og byggir upp styrkinn til að horfast í augu við, eða með öðrum orðum hugrekki. Stundum felst mesta hugrekkið í því að ég horfist í augu við minn eiginn ótta. Þegar ég gef óttanum betur gaum, af fullkomnum heiðarleika, kemur oft í ljós að það sem ég óttast í rauninni eru mín eigin viðbrögð og tilfinningar gagnvart aðstæðunum.
Þegar ég sé það og átta mig jafnframt á því að óttinn er mín eigin sköpun, get ég umbreytt líðan minni og viðbrögðum, sama hversu ógnvekjandi aðstæðurnar virðast vera. Án hugrekkis og heiðarleika get ég hins vegar auðveldlega orðið óttanum undirgefin/n og leyft honum að stýra lífi mínu. Að kalla fram styrkinn til að horfast í augu við krefst þess ekki að ég sé óttalaus heldur að ég hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að leyfa óttanum ekki lengur að stjórna hugsunum mínum, orðum og gerðum.
Undirstaða styrksins til að horfast í augu við er traust. Að ég beri það traust til mín að ég komist yfir hindranirnar sem á vegi mínum verða og að ég treysti því að þær senur sem leikrit lífsins færir mér eru ætlaðar mér til að læra af og vaxa andlega. Styrkurinn til að horfast í augu við hjálpar mér að sjá hlutina í nýju ljósi. Þá verða þær áskoranir sem ég áður upplifði sem ógnvekjandi hvirfilbyl að hagstæðum vindi sem blæs í raun byr í seglin mín, hjálpar mér að komast áfram og verða sterkari.
Hér er lítil æfing sem gott er að grípa til þegar ótti eða kvíði herja á hugann:
Óttablandnar hugsanir herja á hug minn eins og hvirfilbylur… Í stað þess að sogast inní hvirfilbylinn, staðset ég mig í kjarna sjálfsins, eins og ég staðsetji mig í auga hvirfilbylsins… ég skynja algjöra kyrrð, innri ró… hljóð… Ég horfi eins og óháður áhorfandi á hvirfilbyl hugsananna og vel að treysta… ég treysti því að ég er alveg örugg/ur… Ég umvef mig kærleiksríkum hugsunum… ég sýni mér umburðarlyndi og þolinmæði… Ég er hugrökk, kærleiksrík og sterk sál… alveg örugg, ekkert og enginn getur breytt því… Ég sleppi spurningum eins og af hverju, ef, hvers vegna og til hvers… Ég treysti að allt er eins og það á að vera, þó ég sjái það kannski ekki í augnablikinu… Ég upplifi von og gef mér frelsi til að sleppa… ég sleppi því liðna og hvíli í núinu… Hægt og bítandi leysist hviriflbylurinn upp… ég upplifi frið og öryggi innra með mér…