Lauslega þýtt úr bókinni Wings of Soul eftir Dadi Janki

Hvernig get ég treyst því að kærleikur annarra sé sannur?

Til að byrja með skulum við vera viss um að við skiljum þetta orð „traust“.
Traust felur í sér marga aðra eiginleika, svo sem kærleik og virðingu. Ef þú finnur að einhver ber sanna virðingu fyrir þér er líklegra að þú treystir kærleik þeirra.

Traust kemur frá hjartanu frekar en höfðinu. Traust er afleiðing þess hvernig þú upplifir aðra, út frá viðhorfum þeirra og nærveru.

Hin eiginlega spurning um kærleikinn snýst samt ekki um það hvort þú getir treyst öðrum heldu miklu frekar, hversu vel geta aðrir treyst þínum kærleik? Að hvaða marki hefur þú áunnið þér traust annarra?

Þetta er mikilvægt því það er mikill styrkur fólginn í því að vera verðugur trausts annarra. Ef þú hefur þann styrk muntu ekki hafa áhyggjur af því hvort kærleikur annarra til þín sé sannur eða ekki.
Þessi styrkur umbreytir öllum kærleik – hversu yfirborðslegur eða falskur sem hann kann að vera – í sannan, hreinan kærleik.

Það er einmitt þannig sem kærleikur hinnar Æðstu sálar vinnur á okkur.
Við bjuggum aðeins yfir mannlegum, yfirborðslegum kærleik en hreinn kærleikur hinnar Æðstu sálar umbreytir því, fyllir hjörtun og umbreytir löngunum okkar.

Til að ávinna þér traust annarra þarftu að búa yfir innri hreinleika. Sá hreinleiki felur í sér óeigingirni og heiðarleika.Kærleikurinn frá hreinu hjarta er skilyrðislaus. Hann krefst einskis til baka heldur flæðir sjálfkrafa og óhindrað, líkt og fossar eftir rigningartíð.