Hópur fólks var spurður að því undir hvaða kringumstæðum það upplifði mesta gleði og hamingju. Eftir nokkra umhugsun, svaraði ein konan „þegar ég er sönn og samkvæm sjálfri mér“. Aðrir kinkuðu kolli og það var greinilegt að þetta var upplifun margra. Orðatiltæki segir að „þar sem sannleikur býr, þar dansar sálin“. Ein mikilvægasta forsenda þess að við getum upplifað innra frelsi, gleði og léttleika, er að við séum heiðarleg og sönn, ekki aðeins gagnvart öðrum heldur ekki síður gagnvart okkur sjálfum. Fátt íþyngir okkur hins vegar meira en sú tilfinning að við höfum eitthvað að fela og séum því á einhvern hátt óheiðarleg. Á meðan við felum eða bælum hluti innra með okkur getum við ekki byggt upp sterka sjálfsvirðingu.

Flestir tengja óheiðarleika við meðvitaðar lygar eða slæmt athæfi, en staðreyndin er sú að hjá flestum er óheiðarleikinn ómeðvitaður og þarf alls ekki að vera sprottinn af slæmum ásetningi. Sá óheiðarleiki sem íþyngir okkur og kemur í veg fyrir að „sálin geti dansað“ er einfaldlega tilkominn vegna þess að við höfum misst tengslin við okkur sjálf og kunnum því ekki að vera sönn. Við eigum erfitt með að vera hrein og bein í samskiptum og þorum ekki að birta okkur eins og við erum. Við óttumst álit og viðbrögð annarra og erum ekki tilbúin að standa undir því að verða hugsanlega gagnrýnd. Við höldum okkur innan þægindarammans og látum stjórnast af gömlum samskiptamynstrum og venjum, þó svo þau færi hvorki okkur né öðrum raunverulega hamingju. Við stöðnum og hættum að taka innri framförum og missum að lokum alveg tengslin við okkar eigin innri sannleika. Það er þá sem við upplifum leiða, þyngsli, pirring og jafnvel djúpstæða sorg, án þess að gera okkur alltaf grein fyrir ástæðunni. Við erum þá á vissan hátt að svíkja okkur sjálf með því að reyna sífellt að þóknast öðrum.

Til þess að losa okkur úr þessum innri fjötrum þurfum við fyrst og fremst að vera tilbúin að horfast í augu okkur sjálf, með hugrekki og heiðarleika. Við þurfum að hafa þann einlæga ásetning að vilja vera sönn og vera tilbúin að hlusta inn á við til að komast aftur í tengsl við okkar innri sannleika. Stundum er heiðarleiki misskilinn og talið að hann feli í sér „að segja alltaf það sem manni finnst“. Orð sem eru sögð í neikvæðni eða reiði eru hins vegar aldrei af hinu góða. Heiðarleiki er miklu fremur eiginleiki þess sem er í góðum tengslum við sjálfan sig, tekur engu sem gefnu heldur gefur sér tíma til að hlusta eftir sannleikanum innra með sér áður en hann bregst við.

Æfing

Skrifaðu niður allt það sem þú vilt ekki að aðrir viti um þig. Leyfðu öllu sem kemur upp í hugann að fara á blaðið. Viðurkenndu og vertu tilbúinn að horfast í augu við það sem þú skrifaðir á blaðið. Oft er stærsta skrefið að viðurkenna eigin veikleika og mistök fyrir sjálfum sér.