Okkur hefur flestum verið innrætt að særa ekki aðra og við leggjum okkur fram við það eftir bestu getu. Oft gleymist hins vegar hin hlið þessarar lífsreglu, það að leyfa ekki öðrum að særa okkur. Mörgum reynist það öllu snúnara og taka inn á sig neikvæðar og niðurbrjótandi hugsanir, orð eða hegðun annarra. Slíkt getur haft djúpstæð og langvarandi niðurbrjótandi áhrif á líðan okkar.

Til að koma í veg fyrir þessi neikvæðu áhrif frá öðrum, er nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því að við höfum alltaf val í aðstæðum. Aðrir geta komið illa fram við mig, sagt niðrandi orð og sýnt mér vanvirðingu, en ég ræð hvort ég tek á móti því. Tökum dæmi. Ég á afmæli og kunningi minn kemur með illa lyktandi ruslapoka sem hann færir mér í afmælisgjöf. Myndi ég taka við pokanum og stilla honum upp í stofunni hjá mér? Líklega ekki. Líklega færi slík gjöf beina leið í ruslatunnuna.

Dæmið er augljóst og okkur myndi ekki detta í hug að halda gjöfinni. Ef hins vegar einhver talar til mín særandi orð, er þá líklegt að ég losi mig strax við þau, líkt og ég myndi hafa gert við ruslapokann? Algengt er að fólk velti sér upp úr niðurbrjótandi orðum lengi á eftir, rifji jafnvel upp aðstæður aftur og aftur og leyfi sársaukanum að búa um sig í hjartanu.

Slíkt getur verið afar skaðlegt fyrir andlega heilsu okkar og þegar við tökum inn særindi frá öðrum, erum við í raun, beint eða óbeint, að gefa þessum einstaklingum vald yfir líðan okkar.

Til að fyrirbyggja misskilning er nauðsynlegt að nefnaað þó svo að við höfum val í öllum aðstæðum erum við á engan hátt að réttlæta slæma hegðun annarra eða ásaka okkur ef einhver kemur illa fram við okkur. Við horfumst hins vegar í augu við þá staðreynd, að fólk er eins mismunandi og það er margt og enginn kemst hjá því á lífsleiðinni að verða fyrir einhverri neikvæðni frá öðrum. Á þeim stundum er mikill styrkur að geta afþakkað neikvæðnina huglægt í stað þess að taka hana inn á sig.

Mikilvægasta vörnin okkar gagnvart neikvæðni annarra er sterk sjálfsvirðing. Því betur sem ég þekki mig, styrkleika mína jafnt sem veikleika, því auðveldara er að halda innra jafnvægi og verða ekki fyrir áhrifum frá öðrum.

Gagnlegar hugsanir, sprottnar upp úr sjálfsvirðingu, sem hjálpa okkur að verja okkur fyrir neikvæðni annarra:

„Sama hvernig aðrir koma fram við mig, þá ber ég virðingu fyrir mér.“

„Ég er meistarinn yfir mínu lífi og vel að taka ekki við neinu sem brýtur mig niður.“

„Ég vel að gefa engri manneskju vald yfir minni líðan.“

„Ég hef auðmýkt til að draga lærdóm af gagnrýni annarra, en jafnframt sjálfskærleika til að sleppa því síðan úr huga og hjarta og halda áfram reynslunni ríkari.“