Margir hafa þann ávana að tala við sjálfan sig af hörku. Oft erum við með óraunhæfar kröfur og væntingar til okkar sjálfra, kröfur sem við myndum aldrei gera til annarra. Við reiðumst okkur sjálfum fyrir að standa okkur ekki nógu vel, vera ekki nógu dugleg, koma ekki nógu vel fyrir, vera ekki nógu þetta eða nógu hitt. Oft eru þessar innri samræður við eigið sjálf orðnar að svo miklum ávana að við erum hætt að veita þeim athygli en hver einasta neikvæða hugsun sem við hugsum um okkur sjálf dregur úr okkur lífskraftinn.
Við teljum okkur stundum trú um að við séum með þessu að herða okkur og styrkja, en sannleikurinn er sá að neikvæðni í eigin garð getur aldrei verið uppbyggjandi eða hvetjandi heldur dregur úr okkur mátt. Ein leið til að stíga út úr slíkri neikvæðni inn í kærleiksríkar hugsanir er að gerast sitt eigið foreldri. Gott foreldri elskar barnið sitt, óháð mistökunum sem það gerir í lífinu, og leiðbeinir því af alúð en brýtur barnið aldrei niður. Móðirin/faðirinn elskar barnið sitt nákvæmlega eins og það er, með öllum sínum kostum og veikleikum, og óskar því hins allra besta í lífinu.
Á ferðalagi lífsins er leiðin ekki bara dans á rósum. Hvert og eitt okkar gerir ótal mistök á lífsins göngu en vandamálið er ekki mistökin sjálf, heldur hvernig við bregðumst við þeim og vinnum úr reynslunni. Í rauninni höfum við aldrei jafn mikla þörf fyrir kærleika eins og þegar við stöndum okkur ekki „nógu“ vel. Á því augnabliki þurfum við ekki hörku heldur hlýjar hugsanir í eigin garð. Sá sem gerir mistök en brýtur sig ekki niður vegna þeirra, heldur lærir af reynslunni og verður sterkari fyrir vikið, er sigurvegari. Mistökin eru þá ekki lengur mistök heldur mikilvægt tækifæri til innri vaxtar.