Oft er það svo að þegar ég sest niður til að hugleiða fer hugurinn eitthvert allt annað en að mér sálinni. Ég fer að hugsa um atburði dagsins, hvað einhver sagði eða gerði eða hvað ég á eftir að gera. Þessi óróleiki hugans birtist einnig í daglegum athöfnum. Einhver segir eitthvað við mig sem slær mig út af laginu og ég velti því fyrir mér aftur og aftur af hverju þetta kom fyrir eða þetta eða hitt var sagt.

Hér er gott að grípa til styrksins til að sleppa.

Þegar við ferðumst leggjum við okkur fram við að ferðast létt og taka aðeins það með okkur sem við höldum að muni gagnast á ferðalaginu. Ekki er síður mikilvægt að ferðast létt á ferðalagi lífsins. Hverju vil ég halda í huganum og hverju er betra að sleppa? Þegar mér tekst að sleppa jafnóðum neikvæðni sem kemur upp í hugann vernda ég innri léttleika minn og gleði. Ég nýt þess betur að dvelja í núinu og leyfi utanaðkomandi neikvæðni ekki að hafa áhrif á mig.

Styrkurinn til að sleppa gerir samskipti mín við aðra einnig auðveldari og áreynslulausari því í stað þess að láta viðhorf mín til viðkomandi litast af reynslum fortíðarinnar, byggi ég þau á jákvæðni og opnum hug.

Þegar ég þjálfa styrkinn til að sleppa er fyrsta skrefið að verða meðvitaður um eigin hugsanir og taka eftir neikvæðninni um leið og hún gerir vart við sig. Næsta skref er að taka ákvörðun um að sleppa. Ég get hugsað mér að ég setji punkt fyrir aftan hugsanir mínar í stað þess að vera með endalausar vangaveltur eða spurningar. Þriðja skrefið er að setja inn jákvæða, uppbyggjandi hugsun í staðinn sem fyllir mig jákvæðri orku.

En hvað geri ég þegar ég reyni að sleppa neikvæðri hugsun en hún heldur áfram að herja á hugann og lætur mig ekki í friði? Á slíkum stundum er mikilvægt að berjast ekki við eigin hugsanir heldur gefa eftir og slaka á innra með sér. Horfa á hugsunina líkt og hlutlaus áhorfandi og muna að hugsunin er ekki ég og mun líða hjá. Þær neikvæðu hugsanir sem ég hugsa eru, þegar upp er staðið, verstar fyrir mig og þess vegna vel ég að sleppa þeim. Þegar mér tekst að horfa á eigin neikvæðu hugsanir sem áhorfandi missa þær tökin yfir mér og fjara út. Eftir er þá friðsæl vitund og innri kyrrð sem er það sem ég raunverulega er, alltaf.

Hér er lítil æfing hjálpar okkur að þjálfa styrkinn til að sleppa:

Ég beini athyglinni frá umhverfinu og inn á við… Ég byrja að taka eftir eigin hugsunum… ég vel að samsama mig ekki hugsununum heldur fylgist með þeim líkt og áhorfandi…. Ef hugsanir koma upp sem trufla kyrrðina innra sé ég þær fyrir mér leysast upp…. ég sleppi… hugurinn verður sem spegilslétt stöðuvatn… Ég fylli huga og hjarta af einni kraftmikilli staðhæfingu: „ég er andleg vera, grunneðli mitt er friður“. Ég endurtek þessa staðhæfingu hægt og rólega nokkrum sinnum og leyfi áhrifum hennar að flæða um mig. Friður er mitt innsta eðli….Friður er frelsi……Ég er friðsæl sál. Ég nýt þess að dvelja í núinu og upplifa friðinn og kyrrðina sem í því býr.