Oft stend ég mig að því að gera sömu mistökin aftur og aftur í samskiptum við aðra eða í óvæntum uppákomum. Ég finn mig detta ofan í pytt gamalla vana, sprottnum upp úr vörn, ótta, afsökunum eða neikvæðum hugsunum, þrátt fyrir að ég hafi oft lofað mér því að næst muni ég ekki fara þessa leið.

Hvernig stendur á þessu?

Ég hef þá gleymt að nýta mér styrkinn til greina. Ef ég hef ekki tök á að greina hvernig ég er í samskiptum við aðra, þá lagast ekki samskiptin. Ef ég greini ekki hvernig misskilningur og gömul hegðunarmynstur skyggja á skýra hugsun, þá fell ég ávallt aftur og aftur í þann pytt að flokka og dæma í stað þess að greina.

Styrkurinn til greina gerir mér kleift að greina rétt hugsanir, orð og athafnir hjá mér og öðrum og forða mér þannig frá því að bregðast við út frá neikvæðni, gagnrýni og ótta.

Til að laða fram styrkinn til greina verð ég fyrst að stilla mig inn á innsta kjarna sjálfsins til að geta haldið friðsælu vitundarástandi. Þannig skapa ég friðsælt rými innra með mér sem veitir mér heilbrigða fjarlægð frá egóinu, þeim aðstæðum sem ég er í hverju sinni og frá áhrifum annarra. Þetta hjálpar mér að sjá aðstæður í réttu ljósi og ég get þá valið hvernig best er að bregðast við.

Styrkurinn til greina felur ekki í sér að ég gagnrýni, dæmi og flokki til að reyna að finna aftur öryggi innra með mér. Slíkt öryggi er alltaf falskt, gömul leið og venja sem upplyftir mér ekki heldur dregur úr mér kraft og minnkar sjálfsvirðinguna.

Hugleiðsluiðkun opnar „þriðja augað“, sem felur í sér aukinn skilning á mínu innra sjálfi og meiri víðsýni. Það skapar alveg nýjar forsendur fyrir sjálfsskoðun og innra öryggi og losar mig úr fjötrum ótta, efasemda og óöryggis. Á þann hátt verður sýn mín á eigið sjálf og aðra mun raunsærri. Ég upplifi ekki eingöngu það sem ég vil sjá og trúa heldur er fær um að greina sannleikann í aðstæðunum.

Styrkurinn til greina hjálpar mér að virkja þann innri styrk sem í mér býr. Að búa yfir innri styrk þýðir ekki að ég bregðist við með yfirgangi, stjórnun eða reiði þegar ég stend frammi fyrir mótlæti eða erfiðum uppákomum. Í staðinn greini ég hvaða leið er best að nota til að gera aðstæðurnar og samskiptin jákvæðari og upplyftandi.

Hér er lítil æfing:
Ég aðgreini mig frá umhverfinu og líkamanum og staðset mig í sæti sannrar sjálfsvirðingar… vitandi hver ég er, óháð hlutverki, kyni og aldri… Ég horfi á atburðarásina sem hlutlaus,  óháður áhorfandi og minni mig á mína eilífu grunneiginleika… frið… kærleik… og styrk. Ég er friðsæl sál… Ég greini ótta, reiði og gagnrýni en í stað þess að bregðast við þeim með fjötrum vanans vel ég kærleiksríkar og jákvæðar hugsanir til sjálfs míns og annarra… fullviss um að það muni veita mér öryggi og lausn. Í auðmýkt og af heiðarleika greini ég hlutina í réttu ljósi og bregst við, laus við gamlan misskilning og  varnarhætti vanans… Ég upplifi  frelsi… frið… og styrk… laus við fjötra mistaka og erfiðra tilfinninga… Ég er frjáls… ég fyllist vellíðan, friðsæld og innri gleði…