Það er nokkuð ljóst að þegar hugur okkar er fylltur neikvæðni og gagnrýni í garð annarra bitnar það alltaf mest á okkur sjálfum. Stundum verðum við þreytt á eigin hugsunum og viljum ekkert frekar en losna við neikvæðnina úr eigin huga.

Hér kemur styrkurinn til að aðlagast að góðum notum. Þessi styrkur er nátengdur styrknum til að umbera sem tekinn var fyrir hjá okkur í síðasta mánuði.

Styrkurinn til að umbera hefur í för með sér sveigjanleika. Sveigjanleikinn veitir mér síðan styrk til að aðlagast hverjum og hverju sem er, án þess að ég missi styrk minn og vellíðan.

Styrkurinn til að aðlagast þýðir samt ekki að ég taki við hverju sem er frá öðrum og hugsi, „jú, jú, ég get alveg tekið þessu og aðlagað mig, alveg sama hvað…“. Þannig gæti ég virst í jafnvægi út á við meðan undir niðri kraumar gremja og óréttlætistilfinning.

Það er hins vegar gagnlegt að átta sig á því að ég hef alltaf val um það hvort ég vil innra frelsi eða fjötra. Ef ég hef margar neikvæðar hugsanir í garð einhvers hef ég í raun gefið viðkomandi ákveðið vald yfir líðan minni. Og vil ég það? Ég get hins vegar valið að veita mér innra frelsi með því að beina athyglinni að jákvæðum eiginleikum annarra, í stað þess að láta veikleikana pirra mig. Á þann hátt laða ég einnig fram það besta í fari þeirra, velvilja og jákvæðni.

Þegar ég vel að bregðast við með velvilja í stað neikvæðni í samskiptum geta lítil kraftaverk átt sér stað. Sambönd sem jafnvel hafa verið erfið og sársaukafull í langan tíma byrja að umbreytast og heilast. Þessi velvilji okkar til annarra kemur ekki endilega af sjálfu sér en við getum m.a. kallað hann fram og styrkt í gegnum hugleiðslu.

Hér er lítil æfing:

Ég leiði hugsanir mínar inn á við, að sjálfinu… Ég skynja mína eilífu, upprunalegu eiginleika, frið… kærleika…styrk… ég finn hreinan velvilja til eigin sjálfs… Fyllt/ur þessum eignleikum kalla ég nú fram í hugann einstakling sem ég hef átt í erfiðum samskiptum við… Ég hugsa mér að ég horfi í augun á viðkomandi og legg mig fram við að finna velvilja frá hjartanu… Ég minni mig á að viðkomandi hefur sömu grunneiginleika og ég, frið og kærleika, þó hann birti stundum annað…. ég vel að sjá það besta og fegursta í einstaklingnum…. Ég veiti mér það frelsi að sleppa neikvæðum minningum úr fortíðinni og fylli hjartað í staðinn af hreinum velvilja til mín og allra annarra… Ég upplifi innri sátt og finn hvað það er gott að vera með hreinan hug og hjarta…