Hefurðu einhvern tímann lent í aðstæðum þar sem þú hugsar, einu sinni enn, hvað er eiginlega í gangi?!

Margir álíta að það sé sjálfsagt að svara alltaf fyrir sig, það sé svokölluð réttmæt reiði. Aðrir sem búa yfir ákveðinni sjálfstjórn benda á að betra sé að þegja, nota þolinmæðina og gera allt sem þeir geta til að halda friðinn.

Staðreyndin er samt sú að það hefur litla þýðingu að bíta stöðugt á jaxlinn og telja sér trú um að það sé umburðarlyndi þegar undir niðri er kraumandi gremja. Að bæla niður tilfinningar sínar getur í tímans rás valdið ýmiss konar innri togstreitu sem að lokum getur brotist út í afbökuðum samskiptum við aðra og valdið vanlíðan og sorg.

Hvað er þá til ráða?

Hinn sanni styrkur sálarvitundar til að umbera styrkist með reglulegri hugleiðsluiðkun. Hugleiðslan hjálpar mér að sjá hlutina í nýju og skýrara ljósi og byggir upp þann innri styrk sem ég þarf til að geta brugðist við á uppbyggilegan hátt í krefjandi aðstæðum.

Styrkurinn til að umbera felst m.a. í því að ég hafi opinn hug og hjarta, viðurkenni margbreytileika mannfólksins og skilji að hver og einn hefur ákveðnu hlutverki að gegna í leikriti lífsins. Styrkurinn til að umbera snýst um að sleppa öllum væntingum  gagnvart öðru fólki eða þeim aðstæðum sem ég er í hverju sinni. Hann snýst um að ég átti mig á því að ég þarf ekki að stjórna öðrum og aðstæðum til að allt gangi rétt fyrir sig, það er, eins og ég tel vera rétt, heldur að ég treysti flæði lífsins fullkomlega á hverju augnabliki.

Styrkurinn til að umbera verður virkur þegar ég er í vitundinni um og laða fram þá dýrmætu eiginleika sem búa innra með mér, friðsæld, kærleik, styrk og gleði. Þá nær ekki inn sú tilfinning að einhver hafi verið að segja eitthvað óviðeigandi, móðgandi og særandi, ég held mínum innri styrk og friðsæld.

Hér er lítil æfing:

Ég leiði hugsanir mínar inná við að sjálfinu…..ég er friðsæl sál…..Ég er leikari í leikriti lífsins og leik hlutverkið mitt…. en ég er ekki hlutverkið…. ég er eilíf sál….. fyllt friði, kærleik og styrk……  Ég skil að allar aðrar sálir eru einnig að leika sín hlutverk…… en þær eru ekki hlutverkið…. þær eru sálir eins og ég, fylltar friðsæld, kærleik og styrk…. Ég horfi framhjá atburðarásinni, skil heildarmyndina og treysti því að allt er eins og það á að vera…. það sem lífið birtir mér hverju sinni er líkt og sena í leikriti….ég þarf ekki að bregðast við með hugsunum um hvað sé best eða verst, rétt eða rangt….ég einblýni á að skynja mig sem sál……ég er friðsæl sál…..ég er kærleiksrík sál….