Nokkuð oft stend ég mig að því að hafa greint eitthvað í fari mínu sem ég myndi vilja breyta, t.d. í samskiptum við aðra, en í staðinn fyrir að fylgja því eftir held ég áfram að hjakka í sama farinu og ekkert breytist.
Það er ekki nóg að ég greini og viti hvaða breytingar ég vil ef styrkurinn til að ákveða og framkvæma fylgir ekki með. Þá sit ég aðeins uppi með endalausar vangaveltur og hugmyndir að breytingum, get velt mér upp úr þeim í tíma og ótíma og jafnvel rætt um þær við aðra án þess að það hafi nokkuð upp á sig.
Styrkurinn til að ákveða gerir mér kleift að vega og meta mínar eigin hugsanir og gerðir hverju sinni og taka síðan ákvörðun í framhaldinu og fylgja henni eftir. Þegar ég á erfitt með að taka ákvörðun er það oft vegna undirliggjandi ótta og kvíða á því að axla ábyrgð á þeirri ákvörðun sem ég tek. Efasemdir um eigið sjálf geta svipt mig hugrekkinu til að ákveða og að koma hugmyndum í framkvæmd. Stundum er ég einfaldlega ekki tilbúin/n að gera þær breytingar sem ég vil, en það birtist oft í síendurteknum kvörtunum mínum út í aðra. Stundum óska ég þess, yfirleitt ómeðvitað, að aðrir taki ákvarðanir fyrir mig svo ég þurfi ekki að axla ábyrgðina ef eitthvað fer úrskeiðis.
Ef ég hins vegar vel þá leið að taka ekki fulla ábyrgð á eigin lífi er hætta á sívaxandi vanlíðan og pirringi og að ég upplifi mig sem strengjabrúðu, fórnarlamb aðstæðna og umhverfis sem getur litlu breytt.
Styrkurinn til að ákveða gefur mér hugrekki til að axla ábyrgð og standa með þeirri ákvörðun sem ég tek, sama hverjar afleiðingarnar verða. Ákvörðun sem tekin er af heilindum og hreinum ásetningi mun alltaf leiða til góðs. Með aukinni notkun á styrknum til að ákveða fylgir vaxandi sönnun á því að það er í lagi að treysta á sjálfan sig. Jafnvel þegar afleiðingarnar ákvarðana minna eru ekki eins og ég hefði viljað, get ég samt upplifað sátt og umburðarlyndi gagnvart eigin sjálfi, vitandi að ég var að gera mitt besta. Fræjum breytinga hefur verið sáð og oft er það aðeins spurning um tíma hvenær ég uppsker ávextina.
Hér er lítil æfing:
Ég leiði hugann inn á við… að mínum innsta kjarna… ég er friðsæl sál… Ég staðset mig í sæti sannrar sjálfsvirðingar og greini þá áskorun sem ég stend frammi fyrir… Ég treysti að greining mín og ákvörðun er rétt og muni skila árangri… Ég fer handan við afsakanir og ótta við hvað öðrum finnst… muni segja…. eða gera… Ég er tilbúin/n að axla ábyrgð og standa með því sem ég ákveð, sama hver niðurstaðan verður… fullviss um að þótt árangur birtist ekki strax þá hefur fræi verið sáð… fræi til breytinga og uppvaxtar… Ég er tilbúin/n til að standa ein/n með sjálfri/sjálfum mér ef nauðsynlegt er… ég trúi því að ég er að gera hið rétta… ég er laus við eigin afsakanir og ótta um skoðanir annarra…Ég er friðsæl… staðföst… og hugrökk sál… ég veit hver ég er … og því fær enginn breytt… eða getur frá mér tekið…