Hver kannast ekki við að fara af stað með góða hugmynd eða taka þátt í verkefni og sama hversu mikill áhuginn er og góðar hugmyndir koma fram, hægt og bítandi virðist hugmyndin renna út í sandinn eða verkefnið staðnar og situr fast og maður spyr sig: „Hvað kom fyrir?“, „hvað varð um hugmyndina?“
Hér er komið að síðasta styrknum sem tekinn verður til umfjöllunar hjá okkur að sinni en það er styrkur samvinnu. Styrkur samvinnu birtist sem eðlileg afleiðing á samhæfingu eða samvinnu styrkjanna sjö sem fjallað hefur verið um síðustu sjö mánuði. Þá skapast samræming á milli hugsana, tilfinninga og viðhorfa innra með mér og mínu sönnu upprunalegu eiginleikar, friður, kærleikur, styrkur, hreinleiki og innra sætti fara að birtast í framkomu og í samskiptum við aðra. Það leiðir af sér sterkari sjálfsvirðingu og getu til árangursríkrar samvinnu. Ég öðlast færni til að aðgreina mig frá þeim verkefnum sem ég tekst á við hverju sinni og leita lausna með auknum sveigjanleika og aðlögun að ólíkum verkefnum og einstaklingum. Sjálfsvirðing byggð á mínum upprunalegu eiginleikum leiðir af sér innra sætti, þannig að þegar verkefninu er lokið, þá er því lokið og ég fer frá því án þess að hafa þörf fyrir hrós eða viðurkenningu. Regluleg og dagleg hugleiðsla laðar fram þessa upplifun og líðan.
Ef ég upplifi erfiðleika í samvinnu, annað hvort innra með mér eða í samskiptum við aðra, er dýrmætt að staldra aðeins við og fara inn á við. Með því að vega og meta mínar eigin hugsanir og viðhorf, öðlast ég styrk til að koma auga á og taka ábyrgð á þeim hindrunum sem ég hef skapað í samskiptum við aðra. Þegar ég gef mér tíma og rými til að snerta á þögninni sem býr innra með mér, get ég séð hlutina í nýju ljósi og geta mín til að takast á við óleyst verkefni eykst til muna. Þegar mín innri veröld hugsana og tilfinninga er fyllt samhljómi og sátt mun það endurspeglast í samskiptum mínum og samvinnu við aðra.
Hér er lítil æfing:
Ég nýti styrkinn til að fara inn á við… að mínum innsta kjarna… og vinn með þögninni sem býr innra með mér… vitandi hver ég er… ég er friðsæl sál… kærleiksrík og sterk…Ég ákveð að takast á við þau verkefni sem ég stend frammi fyrir… Ég spyr mig af heilindum: „Munu allir njóta góðs af eða bara ég“? „Ber ég virðingu fyrir öðrum og þeirra framlagi eða er ég einungis að nota aðra til að ná mínu fram?“…
Ég hef þann styrk að horfast í augu við mínar eigin hugsanir og tilfinningar, greini og sleppi þeim sem sprottnar eru upp af eigingirni… samkeppni… óöryggi… ótta og gagnrýni… ég gef eftir og sleppi… Ég sýni mér umburðarlyndi og kærleik… ég upplifi sveigjanleika… ég er tilbúin/n að sjá hugmyndir og skoðanir annarra í nýju ljósi… Ég greini hvort ábendingar og hugmyndir muni nýtast vel inní heildarmyndina, verkefninu og hópnum til góðs… Ég greini sérstöðu og styrk hvers og eins í hópnum… fjölbreytileiki sem laðar fram einingu… ég virði framlag hvers og eins…ég treysti… ég er friðsæl og sterk sál….